Branson sýnir nýja geimferju
Breski athafnamaðurinn Richard Branson afhjúpaði í gærkvöldi nýja geimferju, sem hann ætlar að nota til að flytja ferðamenn út í geiminn. Branson sagði, þegar hann sýndi flugvélina á Mojave eyðimörkinni í Kalíforníu, að hann vonaðist til að geta hafið geimferðir eftir eitt og hálft ár.
Gert er ráð fyrir að farmiðinn í geimferðirnar kosti 200 þúsund dali, jafnvirði um 25 milljóna króna. Branson sagðist reikna með að verða í fyrstu geimferðinni í Virgin Galactic vélinni ásamt fjölskyldu sinni og Burt Rutan, sem hannaði vélina.
Virgin Galactic líkist tveimur flugvélum bundnum saman á vængjunum. Annar hlutinn, sem nefnist the WhiteKnightTwo, mun flytja hinn hlutann, SpaceShipTwo, upp í 60 þúsund feta hæð. Þar verða vélarnar aðskildar og SpaceShipTwo mun halda áfram út í geim knúið áfram af eldflaug. Mun farið ná 2500 mílna hraða á 10 sekúndum.
Alls tekur farið sex farþega og tvo flugmenn. Farþegarnir geta setið í sætum sínum og virt fyrir sér jörðina gegnum gluggann eða losað sætisbeltin og upplifað þyngdarleysi eftir að farið hefur farið út úr lofthjúp jarðar.
Branson sagði við sjónvarpsstöðina CNN, að þegar geimferjan snýr aftur til jarðar muni hún breytast einskonar risastóran fjaðrabolta og svífa niður. Með því móti myndist ekki jafn gríðarlegur hiti og þegar venjuleg geimför koma til jarðar gegnum lofthjúpinn.
Geimferjan er ekki tilbúin enn og ýmis búnaður, sem nota á um borð, er enn í þróun, að sögn fyrirtækis Branson.
Um 300 farþegar hafa þegar pantað sér far með geimferjunni og voru þeir meðal gesta þegar vélin var kynnt í gærkvöldi. Einn þeirra er Daninn Per Wimmer, sem á fjárfestingarbanka í Lundúnum. Hann segir við Jótlandspóstinn í dag, að hann geti varla beðið eftir því að komast í geimferðina.